alfar_landslagHvernig má laða álfa í garðinn?

Það hefur ekki verið mikið skrifað um gerð álfabústaða, en þegar ég spurðist fyrir voru svörin mörg og flestum bar þeim vel saman. Þessar stuttu leiðbeiningar um gerð álfhóls taka mið af þessum svörum og einnig útliti bústaða álfa eins og við þekkjum þá í náttúrunni. Til þess að útbúa garð þannig að hann laði til sína álfa þarf að bera virðingu fyrir náttúru og umhverfi. Álfar eru náttúruverur í miklum tengslum við gróður og móður jörð. Uppbygging bústaða þeirra þarf því að miða að því að góð jarðtenging fáist, sérstaklega þegar verið er að koma fyrir klettum, dröngum eða stórum steinum. Því stærra hlutfall steinsins sem er neðanjarðar því betri verður tengingin við jörðina. Til að tryggja þetta má miða við að tveir þriðju hluta hans séu neðanjarðar. Ef um er að ræða fleiri en einn stein þurfa þeir að falla þétt saman og helst þannig að ekki sjáist í gegnum bilið á milli þeirra. Áður en slíkum steinum er komið fyrir þarf að skoða lögun þeirra vel. Álfabústaðir þurfa dyr, en þær eru ofanjarðar og myndast á flötum hluta steinsins. Því er sléttur flötur látinn standa upp úr jörðinni til að mynda dyrnar, halla eilítið mót himni en snúa þannig að þær nái annaðhvort sólargeislum morguns eða kvölds. Til þess þurfa dyrnar að snúa móti austri eða vestri. Álfar búa einnig í grashólum og ef hóll er mótaður fyrir álfa skal hann vera fallegur í laginu og lagaður með ást og umhyggju.