hellur_hellulganirHellur og hellulagnir

Hvers vegna að helluleggja? Steyptar hellur eru meðal margra mögulegra yfirborðsefna fyrir bílastæði, stíga og dvalarsvæði. Hellulagt svæði í garði myndar gott mótvægi við mjúka trépalla, grasflatir og gróður. Hellulögðu fletirnir eru slitsterkir og formfallegir, auk þess sem yfirborðsvatn getur auðveldlega runnið af þeim. Þeir gefa einnig möguleika á því að svæðið sé hitað, og þar með laust við snjó og klaka á veturna.

Hellulagnir og munstur

Með þeirri tækni sem nota má við að saga og höggva hellur er mögulegt að útbúa ýmiss konar form og mynstur. Þessi form geta tekið mið af útliti hússins þannig að heildarsamspil húss og garðs aukist. Einnig geta hlutföll í hurðum, gluggum, bogaþök, þríhyrndir gluggar eða önnur sterk útlitseinkenni gefið tóninn fyrir mynstur. Ef mismunandi form eru notuð á svæði í garðinum má gefa hverju einstöku svæði sinn sérstaka stíl, líkt og herbergjum sem máluð eru í mismunandi litum. Síðan eru ólíkar tegundir af blómstrandi runnum staðsettar við hvert svæði eins og málverk sem hengd eru á veggi innandyra. Þannig eiga hellurnar stóran þátt í að mynda það ævintýrasvæði sem garðurinn getur orðið.

Fjölbreytni í formi og litum

Mikið úrval er af hellum sem nota má í garðinn; mismunandi stærðir, lögun og litir. Algengt er nú að valdar séu smáar hellur sem raðað er í mynstur. Litaðar hellur eru einnig að verða algengari, en með þeim er hægt að mynda samspil við liti og form í húsi og umhverfi. Fjórir litir eru algengastir; grár (venjulegur steypulitur), sótgrár (stundum kallaður svartur), rauður og brúnn. Grár og dökkgrár eru hefðbundnir litir steypu og malbiks hér á landi og því er hellulögn í þessum litum oftast í samræmi við nánasta umhverfi. Rauði liturinn er vandmeðfarinn og máli skiptir að hann sé hluti af samspili húss og umhverfis. Þannig getur rauður litur í stétt myndað samræmi við þaklit eða lit á gluggakörmum. Brúni liturinn er nokkuð þægilegur í meðförum því hann er til staðar í jarðvegi og gróðri, auk þess sem viður í girðingum og gluggum húsa getur myndað skemmtilegt samspil við hann.

 

Á blogginu landslagsarkitekt.com má finna mikinn viðbótarfróðleik um hellur og hellulagnir