grodur_adkomaGróður og uppröðun
Til að mynda samræmda heildarmynd garðs og gróðurs má þróa stefnu sem tengir saman einkenni gróðurs og skipulag garðsins. Slík stefna getur snúið að tilraunum í fagurfræði, mótuðum hugmyndum eða þemu. Algeng stefna er að hafa alltaf eitthvað blómstrandi yfir allt vaxtartímabilið og jafnframt sígrænan gróður fyrir veturinn. Þá eru valdar saman tegundir sem blómstra á vorin, að sumri og um haust, ásamt sígrænum plöntum. Algengt þema getur snúið að lit blóma en þá fær hvert svæði í garðinum sinn blómalit og mætti þá kalla þau hvíta svæðið, bleika svæðið eða græna svæðið. Stefnan getur einnig snúist um hagkvæm atriði eins og viðhald, en með þéttri gróðursetningu má hafa áhrif á hversu auðvelt illgresi á með að skjóta rótum. Rómantík, hugleiðsla, slökun, villt náttúra og önnur huglæg atriði geta einnig verið innblástur að þema garðsins.