sumarhus_pallurTrépallar eru algengir við sumarhús
Þegar verið er að ákveða hvaða yfirborð eigi að nota á verönd stendur valið yfirleitt á milli steinsteypu, hellna og trépalls. Til þess að steypa og hellulagðar verandir séu til friðs þarf undirlagið að vera laust við frostvirkni en efni, svo sem mold og leir, draga í sig mikið vatn og þenjast því út í frosti. Ef mikil frostvirkni er í undirlaginu aflagast stéttin því á hverjum vetri. Þess vegna þarf jafnan að skipta um jarðveg fyrir steyptar stéttir og hellulagnir. Þegar um trépall er að ræða er nóg að útbúa undirstöður sem ná niður fyrir frost en hver undirstaða getur haldið uppi allt að fjórum fermetrum af palli. Trépallurinn verður því mjög álitlegur kostur á stöðum þar sem erfitt er að koma fyrir tækjum til að grafa. Einnig ef flytja þarf efnið í veröndina langar leiðir því talsverður þyngdarmunur er á steypu og timbri. Í mörgum tilfellum dugir að nota einfaldar undirstöður fyrir palla þannig að vélavinna sé í lágmarki. Þetta er ein af ástæðum þess að trépallar eru algengir við sumarhús. – úr bókinn Draumagarður