skjolveggur_gardhusgogn_stettSkjólgirðingar og ríkjandi vindáttir

Á hverjum stað eru einnig ríkjandi vindáttir. Þetta eru þær áttir sem algengast er að vindurinn blási úr. Ríkjandi vindáttir geta verið mismunandi eftir árstíðum. Sumum vindáttum fylgir rigning eða væta en aðrar eru algengar í björtu veðri og þurru. Þetta er bæði breytilegt eftir landshlutum og eftir því hver afstaða fjalla er. Þannig hefur til dæmis Esjan þau áhrif að þegar norðaustanátt er yfir landinu geta verið austan-, norðaustan-, norðan- eða norðvestanáttir, allt eftir því hvar á höfuðborgarsvæðinu vindurinn er mældur. Á suðvesturhorni landsins er algengasta áttin suðaustlæg. Það er jafnframt ein vætusamasta áttin. Önnur algeng átt er norðlæg og norðaustlæg. Þessum norðlægu áttum fylgir yfirleitt bjart veður og sólskin. Þess vegna er mikilvægt, þegar verið er að hanna útivistarsvæði í garðinum, að skýla fyrir þeim áttum því útivistin er skemmtilegust í björtu og þurru veðri. – úr bókinni Draumagarður