lysing_gardur_solpallurLýsing dvalarsvæðis í görðum
Dvalarsvæðið er stofa garðsins og þar má leggja áherslu á að bæta þægindi, mynda skjól og auka lýsingu og fjölga þannig mögulegum tómstundum. Þá nýtist þessi hluti garðsins vel á kvöldin þegar dagarnir eru styttri, t.d. fyrir hvíldarstundir í heita pottinum. Dvalarsvæðið er líka oft það svæði sem sést hvað best innan úr húsinu og er lýsingin því mikilvæg til að tengja saman íbúðarrými innandyra og tímabundin dvalarrými utandyra. Þar skiptir máli að lýsing valdi ekki óþægindum, skeri ekki í augu og flæði ekki mikið inn á nærliggjandi svæði. Oft er því gott að hafa ljós neðarlega þannig að áherslan sé á að lýsa upp yfirborðið svæðisins og lágan gróður í jaðri þess. Á þeim svæðum þar sem mikilvægt er að sjá vel til, t.d. við matborðið, má hafa ljós ofan við augnhæð. Þá getur verið gott að miða við rúmlega tveggja metra hæð og leita að tækifæri til þess að hafa ljós á veggjum, í þakköntum eða á háum staurum. Ef ljós eru sett í þakkanta þarf að huga vel að nálægum gluggum því að ljós sem skín beint inn um glugga getur verið óþægilegt. Grundvallarreglan er því sú að hafa ljós í þakköntum á milli glugga. Ef dvalarsvæði sést vel út um glugga í húsi má setja ljós í garð með tilliti til útsýnis þaðan. Þá eru skilgreind þau svæði sem verða hluti útsýnisins, þau lýst upp og skuggasvæðin látin eiga sig til þess að skilin milli ljóss og myrkurs verði skýrari. Þetta undirstrikar heildarmyndina sem getur gert útsýni úr stofu að listaverki. – Úr bókinn Draumagarður