vedurfar_skjolveggurVeðurfar og skjólmyndun
Margar leiðir eru færar til að mynda skjól í görðum en þörfin er mismikil og fer eftir aðstæðum. Einn mikilvægasti skjólgjafinn í venjulegum garði er íbúðarhúsið sjálft. Lögun þess og hvernig það er staðsett á lóðinni getur orðið til þess að mynda mjög gott skjól. Þó eru einnig til dæmi þess að í ákveðnum vindáttum magni afstaða og staðsetning húss upp vindsveipi. Þegar þetta gerist þarf að skoða þessa staði vel og athuga hvort hægt sé að beina vindinum frá setu- og sólbaðssvæðum. Það sem er erfiðast að eiga við er þegar vindar blása ofan af þaki, en þá getur lega skjólveggja jafnvel magnað upp áhrif vindanna. Besta leiðin til að nýta það skjól sem húsið myndar er að nota skjólveggi eða harðgerðan gróður sem beina vindi utar í garðinn og gera það að verkum að skjólsvæði við húsið verða stærri. Skjólveggir eru ýmist gerðir úr timbri, steypu eða hlaðnir. Í mörgum tilfellum er einnig hægt að notast við umhverfisvænni aðferðir eins og gróður eða hæðir og hóla. – Úr Draumagarði