geymslur_bekkur_solpallurGeymslur í garðinum

Góðar geymslur gefa tækifæri til að fela það sem ekki er í notkun og halda röð og reglu á öllu því sem fylgir góðum stundum úti í garði. Leikföng, verkfæri, útigrill og húsgögn þurfa öll sinn stað. Með góðum geymslum má lengja endingartíma allra þessara hluta. Sumt er gott að geyma inni að jafnaði, en annað þarf helst geymslustað yfir veturinn.

Leikföng í góðar geymslur

Gott er að geta gengið frá leikföngum eftir hverja notkun, en garðhúsgögn og grill má láta standa úti yfir sumarið þannig að ekki þurfi mikið umstang til að hefja notkun þeirra. Stundum getur verið gott að setja reiðhjól, sláttuvélar og annað sem tekur pláss í bílskúrnum í geymslu úti í garði.

Geymslur í bekkjum

Tegund geymslu og staðsetning hennar eru þau atriði sem helst þarf að skoða við útfærsluna. Geymslur geta verið í formi afmarkaðra svæða, lítilla húsa eða skápa sem hafðir eru við girðingar eða undir bekkjum. Staðsetning geymslu fer eftir því hvar laust pláss er í garðinum og hvað á að geyma. Ef geyma á grillið í geymslunni getur skipt máli að geymslan tengist trépallinum beint. Ef hins vegar um er að ræða vetrargeymslu fyrir garðhúsgögn getur illa nýtt horn í garðinum gefið góða möguleika. – úr bókinni Draumagarður