steinar_studlaberg_blagryti_molSteinar og stuðlaberg

Áður en notkun steypu varð algeng voru ýmis konar efni úr tilhöggnu bergi og náttúrusteinum notuð til að hlaða hús og leggja stéttir. Tilhöggnir steinar eru ennþá notaðir í vandaðar og dýrar framkvæmdir sem eiga að standast tímans tönn hvað varðar endingu og stíl. Þar sem endurskapa á hughrif liðinna tíma geta tilhöggnir steinar myndað útfærslurnar sem aðrir hlutar garðsins eru mótaðir að.

Á Íslandi er basalt algengasta bergtegundin í þessar framkvæmdir, en það skiptist í blágrýti og grágrýti. Blágrýtið er harðara og finnst aðallega í formi stuðla. Algengast er að nota stuðlana óunna en einnig getur verið fallegt að saga þá niður. Ef stuðlarnir eru sagaðir þvert myndast kantaðar plötur með 5-7 hliðum en ef sagað er langsum verða til ílangar blágráar hellur. Grágrýti, sem er mýkra og til í meira magni, hefur verið algengara sem byggingarefni þar sem auðveldara er að höggva það í mismunandi form og hlaða úr því hús og leggja götur. – Úr bókinni Draumagarður