gardahonnun_solpallur_grasflotGarðar og garðahönnun

Vel skipulagður garður sameinar notagildi og fegurð þannig að íbúðarrýmið framlengist og fjöldi nýrra tækifæra til útivistar verða til. Með eðlilegri samsvörun í formum, litum og áferð, ásamt góðum húsgögnum og afþreyingarmöguleikum, verður hann einn af uppáhaldsstöðunum. Þegar stærðir svæðanna utandyra samsvara sér vel og mynda góð tengsl við herbergi hússins fá þau skemmtilegt hlutverk í heildarmynd íbúðarrýmis. Með vel skipulögðum garði er séð fyrir fjölbreyttri notkun svæða innan hans og góðri tengingu við nánasta umhverfi. Þannig fær garður við sjávarsíðu annað yfirbragð en garður í hraunlandslagi og garður í sveit er afmarkaður á annan hátt en garður í miðborg. Af þessu má vera ljóst að það þarf hugkvæmni til að móta fallegan garð fyrir fjölbreytt not og góða samsvörun við umhverfið.

Ástríða fyrir fallegum görðum

En hver eru einkenni góðrar garðhönnunar? Til þess að skipuleggja glæsilegan garð þarf ástríðu fyrir fegurð og formum, áhuga á fallegu umhverfi og að vera umhugað um vellíðan fólks. Ástríðan getur komið fram í áhuga á gróðri, hönnun og skipulagi eða þörf til að framkvæma. Því ætti hver hönnuður að hlusta á sína innri rödd og leggja áherslu á vinnuna í samræmi við áhugasvið sitt, ásamt því að byggja upp góða tilfinningu fyrir heildarmynd en hún ræður hughrifum notandans.

Hægari lífstaktur í garðinum

Skynfæri hönnuðar og síðan garðeigandans eru virkjuð með útfærslum á formfallegum rýmum, fjölbreyttum litum, lykt af gróðri, hljóði frá seytlandi vatni og mismunandi áferð byggingarefna. Í garðinum verður lífstakturinn hægari, þreytan líður burt og streitan gleymist. Með góðri samræmingu á hinum fjölmörgu þáttum getur hönnuðurinn skapað stað til leikja og skemmtunar.