honnun_gardur_solpallurHönnun garðsins

Hver eru einkenni góðs garðhönnuðar? Til þess að skipuleggja glæsilegan garð þarf ástríðu fyrir fegurð og formum, áhuga á fallegu umhverfi og að vera umhugað um vellíðan fólks. Ástríðan getur komið fram í áhuga á gróðri, hönnun og skipulagi eða þörf til að framkvæma. Því ætti hver hönnuður að hlusta á sína innri rödd og leggja áherslu á vinnuna í samræmi við áhugasvið sitt, ásamt því að byggja upp góða tilfinningu fyrir heildarmynd en hún ræður hughrifum notandans. Skynfæri hönnuðar og síðan garðeigandans eru virkjuð með útfærslum á formfallegum svæðum, fjölbreyttum litum, lykt af gróðri, hljóði frá seytlandi vatni og mismunandi áferð byggingarefna. Í garðinum verður lífstakturinn hægari, þreytan líður burt og streitan gleymist. Með góðri samræmingu á hinum fjölmörgu þáttum getur hönnuðurinn skapað stað til leikja, skemmtunar, íhugunar eða einveru þar sem njóta má næðis með góða bók eða eigin hugsanir. – Úr bókinni Draumagarður