tjorn_hellur_studlabergTjarnir
Fátt er meira róandi en að hlusta á lækjarnið, horfa út á sléttan vatnsflöt eða dýfa stórutá í vatn. Vatnið hefur einnig löngum verið nýtt til lækninga og til að skapa þægilegt andrúmsloft. Það má því segja að tjörn eða gosbrunnur geti bætt heilsu og aukið ánægju þeirra sem þar koma nálægt. Margir leggja áherslu á að vera með vatn í garðinum og oft verða þeir staðir miðpunktar garðsins. Það eru margar leiðir til þess að hafa vatn í görðum. Til er fjöldi útfærslna af tjörnum og gosbrunnum, allt frá litlum steinum með gati upp í flókin kerfi lauga með gosbrunnum og fossum á milli. Hvernig tjörn skal velja fer eftir því hver tilgangurinn með henni er. Sumir vilja einungis heyra þægilegan vatnsniðinn en öðrum finnst ómissandi að vera með fiska í garðinum, en þá þarf djúpar tjarnir með miklu flatarmáli. Fyrir suma er útfærsla tjarnar uppspretta sköpunar þar sem umgjörðinni er breytt á hverju ári, nýjar plöntur settar í stað þeirra gömlu og gosbrunnum með marglitum upplýstum bunum bætt við. – Úr bókinni Draumagarður