skjolgirdingar_utsyni_glerÚtsýni og sjónásar
Í hæðóttu landslagi, með fjöll og sjó í nágrenni, er útsýni mikilvægur þáttur í vellíðan fólks og áhrifavaldur þegar kemur að hönnun garða. Fjallasýn og sjór hafa ávallt verið innblástur fyrir myndlistarmenn og mörg slík verk hanga á veggjum í híbýlum fólks. Það er einnig talinn kostur ef íbúðir hafa útsýni yfir haf eða fjöll og getur það hækkað verð fasteignar. Á sama hátt getur fallegt útsýni úr garði aukið ánægju og hughrif, en náttúrusýn er talin hafa streitulosandi áhrif. Við hönnun garða er hugtakið útsýni víkkað út svo hægt sé að taka með í reikninginn útsýni og sjónása innan garðs. Þá er hægt að skyggja á óásjáleg atriði utan hans og auðga sjónræna upplifun þegar gengið er um hann. Með upplifun er átt við hvað birtist þegar gengið er eftir stíg sem sveigist eða þegar gengið er fyrir horn. Það eru aðallega þrjár leiðir sem hönnuðir hafa til þess að nýta sér útsýni við skipulag garðsins. Það má ramma það inn, loka það úti eða nýta garðmuni og gróður til að skapa fyrirfram ákveðna mynd.