Category Archives: Ideas

arkitekt_gardurArkitekt til að teikna garðinn

Öllum þeim sem eru að útbúa nýjan garð eða breyta gömlum garði í nýjan er nauðsynlegt að taka góðar ákvarðanir. Þá er oft spurning hvort nauðsynlegt sé að láta arkitekt eða landslagsarkitekt teikna garðinn. Teikning auðveldar garðeigendum, verktökum og öðrum fagmönnum að útfæra og framkvæma í garðinum. Með gerð góðrar teikningar er tekið á flestum þeim þáttum sem eru mikilvægir í nýjum garði. Það er ekki síður þægilegt að hafa greinargóðar upplýsingar fyrir breytingar á eldri görðum.

Landslagsarkitekt í útfærslurnar

Góður landslagsarkitekt getur fundið fallegar lausnir fyrir garða við einbýli, fjölbýli og sumarhús. Einnig geta þeir fundið skemmtilegar útfærslur fyrir svæði þar sem aðstæður eru sérstakar eða óvenjulegar t.d. þar sem landhalli er mikill eða þar sem ósnortin náttúra nær inn í garðinn.

Hvað er á teikningunni

Meðal þess sem er tekið á við útfærslu teikningar er:

  • Stílbrigði og skemmtilegar hugmyndir
  • Undirbúningur og meðferð á sérstökum aðstæðum
  • Val á réttum efnum, timbri, stéttum og gróðri
  • Smáatriði og útfærslur

Það má vinna með ýmiskonar stílbrigði, allt frá beinum og praktískum línum upp í rómantískar útfærslur sem og abstrakt hugsun í hönnun garða. Ef reynslumikil arkitekt er með í ráðum  er tryggt að útfærslur eru byggðar á góðum grunni.

alfar_landslagHvernig má laða álfa í garðinn?

Það hefur ekki verið mikið skrifað um gerð álfabústaða, en þegar ég spurðist fyrir voru svörin mörg og flestum bar þeim vel saman. Þessar stuttu leiðbeiningar um gerð álfhóls taka mið af þessum svörum og einnig útliti bústaða álfa eins og við þekkjum þá í náttúrunni. Til þess að útbúa garð þannig að hann laði til sína álfa þarf að bera virðingu fyrir náttúru og umhverfi. Álfar eru náttúruverur í miklum tengslum við gróður og móður jörð. Uppbygging bústaða þeirra þarf því að miða að því að góð jarðtenging fáist, sérstaklega þegar verið er að koma fyrir klettum, dröngum eða stórum steinum. Því stærra hlutfall steinsins sem er neðanjarðar því betri verður tengingin við jörðina. Til að tryggja þetta má miða við að tveir þriðju hluta hans séu neðanjarðar. Ef um er að ræða fleiri en einn stein þurfa þeir að falla þétt saman og helst þannig að ekki sjáist í gegnum bilið á milli þeirra. Áður en slíkum steinum er komið fyrir þarf að skoða lögun þeirra vel. Álfabústaðir þurfa dyr, en þær eru ofanjarðar og myndast á flötum hluta steinsins. Því er sléttur flötur látinn standa upp úr jörðinni til að mynda dyrnar, halla eilítið mót himni en snúa þannig að þær nái annaðhvort sólargeislum morguns eða kvölds. Til þess þurfa dyrnar að snúa móti austri eða vestri. Álfar búa einnig í grashólum og ef hóll er mótaður fyrir álfa skal hann vera fallegur í laginu og lagaður með ást og umhyggju.

fastur_bekkurFastur bekkur eða færanleg húsgögn

Húsgögnin í garðinum geta ýmist verið innbyggð eða færanleg. Innbyggð húsgögn eru gjarnan föst við trépalla og smíðuð úr sama efni. Algengt er að setja innbyggða bekki við girðingar, bæði til þess að mynda sæti og til að láta girðinguna sýnast lægri. Ef slíkur bekkur er hafður við ytri mörk dvalarsvæðis nýtist bekkurinn einnig sem afmörkun og plássið á slíkum svæðum nýtist gjarnan betur. Á þessa föstu bekki má einnig stilla upp skrautmunum eða blómapottum. Þeir eru einnig til staðar snemma vors ef allt í einu gerir gott veður og ekki er búið að ná í garðhúsgögnin í geymsluna. – Texti úr bókinni Draumagarður

dvalarsvaedi_gardurDvalarsvæði í garði

Í huga nýrra garðeigenda er garðurinn gjarnan staður þar sem gott er að liggja í sólbaði, baða sig í heitum potti og grilla og borða góðan mat, en ekki staður þar sem garðvinna tekur við af dagvinnu. Því eru dvalarsvæði garðsins gjarnan hugsuð út frá því að lítið þurfi að hafa fyrir að halda þeim við.

Skipulag garðsins

Hvernig dvalarsvæði er skipulagt og hvaða efni eru notuð í yfirborðið hefur áhrif á hversu mikill tími fer í umhirðu garðsins. Ef svæðið er vel útfært má flytja margt af því, sem venjulega er gert innandyra, út í garðinn, t.d. leik barna, eldamennsku, hvíld og baðferðir. Á þennan hátt tengist garðurinn húsinu, bæði hvað varðar notkun og einnig sem hluti af samræmdri heildarmynd.

Garðhúsgögn mikilvæg

Eitt mikilvægasta atriðið við útfærslu dvalarsvæðis er að koma fyrir góðum og nytsamlegum húsgögnum. Með því að gera ráð fyrir þeim strax við hönnun svæðanna má auka notagildi þeirra. Miða má staðsetningu húsgagnanna við hvar sólin er á hverjum tíma dags og hvar best er að finna skjól. Þannig má hafa sólstóla undir veggjum sem snúa mót suðri og suðaustri, en þetta eru þau svæði sem hitna hvað mest á daginn.

Borðað í garðinum

Matborðið má svo hafa þar sem sólar nýtur seinni part dags og á kvöldin, en algengt er að eftirmiðdagskaffi sé drukkið og kvöldverður snæddur úti í garði. Gott er að gera ráð fyrir tveimur mögulegum stöðum fyrir grillið, eftir því úr hvaða átt vindar blása, en nútíma gasgrill er auðvelt að færa á milli staða. – Úr bókinni Draumagarður

gardahonnun_solpallur_grasflotGarðar og garðahönnun

Vel skipulagður garður sameinar notagildi og fegurð þannig að íbúðarrýmið framlengist og fjöldi nýrra tækifæra til útivistar verða til. Með eðlilegri samsvörun í formum, litum og áferð, ásamt góðum húsgögnum og afþreyingarmöguleikum, verður hann einn af uppáhaldsstöðunum. Þegar stærðir svæðanna utandyra samsvara sér vel og mynda góð tengsl við herbergi hússins fá þau skemmtilegt hlutverk í heildarmynd íbúðarrýmis. Með vel skipulögðum garði er séð fyrir fjölbreyttri notkun svæða innan hans og góðri tengingu við nánasta umhverfi. Þannig fær garður við sjávarsíðu annað yfirbragð en garður í hraunlandslagi og garður í sveit er afmarkaður á annan hátt en garður í miðborg. Af þessu má vera ljóst að það þarf hugkvæmni til að móta fallegan garð fyrir fjölbreytt not og góða samsvörun við umhverfið.

Ástríða fyrir fallegum görðum

En hver eru einkenni góðrar garðhönnunar? Til þess að skipuleggja glæsilegan garð þarf ástríðu fyrir fegurð og formum, áhuga á fallegu umhverfi og að vera umhugað um vellíðan fólks. Ástríðan getur komið fram í áhuga á gróðri, hönnun og skipulagi eða þörf til að framkvæma. Því ætti hver hönnuður að hlusta á sína innri rödd og leggja áherslu á vinnuna í samræmi við áhugasvið sitt, ásamt því að byggja upp góða tilfinningu fyrir heildarmynd en hún ræður hughrifum notandans.

Hægari lífstaktur í garðinum

Skynfæri hönnuðar og síðan garðeigandans eru virkjuð með útfærslum á formfallegum rýmum, fjölbreyttum litum, lykt af gróðri, hljóði frá seytlandi vatni og mismunandi áferð byggingarefna. Í garðinum verður lífstakturinn hægari, þreytan líður burt og streitan gleymist. Með góðri samræmingu á hinum fjölmörgu þáttum getur hönnuðurinn skapað stað til leikja og skemmtunar.

gardur_heitur_potturHvernig er “íslenskur” garður?

Auðvitað sækjum við Íslendingar hugmyndir í garðamenningu með mörg hundruð ára sögu en eins og í byggingarlistinn höfum við mörg tækifæri til not íslenskar hugmyndir og byggingarefni. Íslenskur garður dregur fjalla- eða sjávarsýn inn í garðinn, er fullur af þjóðlegum einkennum og tekur tillit til erfiða veðurfarsins. Það er víða útsýni úr görðum og það er til ýmsar leiðir til að draga það inn í garðinn sérstaklega með réttri staðsetningu á gróðri. Oft er þó verið að reyna að mynda skjól fyrir vindum sem koma úr sömu átt og þaðan sem útsýnið er fallegast. Þaðan þar má útbúa skjólveggi með gleri og „ramma inn“ fallegar myndir. Hraun, stuðlaberg og mosi eru öll einkennandi fyrir ísland og því góð efni í hleðslur stéttar og skraut.

Garður með tröllum og álfum

Hugmyndafræðilega má sækja í eld og ís auk þess sem álfar og tröll geta spilað stórann sess í garðinum. Við eigum einnig sögu  í torfbæjum og steinhleðslum sem setja víða fallegt yfirbragð á landslagið. Reyndar held ég að Álfar og tröll eigi eftir að spila stóran sess í framtíð íslenskra garða og það að laða álfa inn í garð verði jafn mikilvægt og feng shui er í austurlenskri hönnun.

Garði skipt í herbergi

Þeir sem standa frammi fyrir ómótuðum garði gera sér gjarnan ekki grein fyrir því hvernig er best að byrja. Það getur verið erfitt með að finna og móta hugmyndir, auk þess að sjá fyrir sér fullmótaða heildarmynd. Viðfangsefnin má þó nálgast á ýmsan hátt. Ein árangursrík leið er að hugsa garðinn eins og íbúð. Þá er garðinum skipt í herbergi sem hvert hefur sinn tilgang. Herbergjunum eru gefin nöfn, t.d. morgunsvæði, bílastæði, anddyri, kvöldsvæði, baðsvæði (hér er heiti potturinn), leiksvæði o.s.frv. Staðsetning flestra svæðanna ræðst af nálægð við húsið, en þau eru einnig staðsett miðað við sólargang, ríkjandi vindáttir og á hvaða tíma dags eigi að nota þau. Þannig er til dæmis kvöldsvæðið haft þar sem sólar nýtur lengst á daginn.

geymslur_bekkur_solpallurGeymslur í garðinum

Góðar geymslur gefa tækifæri til að fela það sem ekki er í notkun og halda röð og reglu á öllu því sem fylgir góðum stundum úti í garði. Leikföng, verkfæri, útigrill og húsgögn þurfa öll sinn stað. Með góðum geymslum má lengja endingartíma allra þessara hluta. Sumt er gott að geyma inni að jafnaði, en annað þarf helst geymslustað yfir veturinn.

Leikföng í góðar geymslur

Gott er að geta gengið frá leikföngum eftir hverja notkun, en garðhúsgögn og grill má láta standa úti yfir sumarið þannig að ekki þurfi mikið umstang til að hefja notkun þeirra. Stundum getur verið gott að setja reiðhjól, sláttuvélar og annað sem tekur pláss í bílskúrnum í geymslu úti í garði.

Geymslur í bekkjum

Tegund geymslu og staðsetning hennar eru þau atriði sem helst þarf að skoða við útfærsluna. Geymslur geta verið í formi afmarkaðra svæða, lítilla húsa eða skápa sem hafðir eru við girðingar eða undir bekkjum. Staðsetning geymslu fer eftir því hvar laust pláss er í garðinum og hvað á að geyma. Ef geyma á grillið í geymslunni getur skipt máli að geymslan tengist trépallinum beint. Ef hins vegar um er að ræða vetrargeymslu fyrir garðhúsgögn getur illa nýtt horn í garðinum gefið góða möguleika. – úr bókinni Draumagarður

girdingar_hellur_skjolveggurHlutverk girðinga við skjólmyndun
Girðingar eru ein hagkvæmasta og fljótlegasta leiðin til þess að auka skjól í garði, en staðsetning þeirra, útfærsla og tengsl við hús segja til um hversu mikið skjól er hægt að útbúa. Það fyrsta sem þarf að hafa í huga þegar verið er að mynda skjól er hvernig vindur hagar sér. Það skiptir miklu máli að átta sig á því að það verður ekki skrúfað fyrir vindinn með því að setja upp skjól heldur er vindinum beint annað. Ef settur er upp veggur þvert á vindstefnuna þá er loftstreymið ekki stöðvað því vindurinn heldur áfram að blása og loftmassinn verður að komast áfram. Vindurinn lyftir sér því yfir vegginn og smýgur einnig fram hjá honum til beggja hliða. Þannig myndast skjólsvæði hlémegin þegar hann þrýstir sér yfir vegginn en að sama skapi er trekkurinn mjög sterkur efst á veggnum og til hliðar þar sem hann sleppur fram hjá. Ef skjólveggir eru reistir án þess að hugsa áhrif þeirra til enda er alltaf hætta á að í sumum áttum verði til hvirflar. Þannig getur t.d. skjólveggur hlémegin við hús tekið á móti vindi af þakinu og beint honum inn á dvalarsvæðið. – Úr bókinni Draumagarður

gras_bekkur_solpallurGrasflöt
Vel formuð grasflöt getur hæglega orðið andrými garðsins. Hún er gjarnan vanmetin en notagildið og möguleikar til fegrunar eru nánast ótæmandi. Þar má ærslast og leika áhyggjulaus yfir falli ef dottið er í mjúkan svörðinn. Húsgögn fara vel á grasi og í góðu veðri má gera nánast allt það sem gert er á trépöllum eða stéttum. Það er auðvelt að móta flötina í falleg form og gras fer vel með flestum tegundum gróðurs. Með því að stýra stærð og lögun grasflata má auka notagildi þeirra en sá eiginleiki að hægt sé að stinga ofan í flötina hefur það í för með sér að auðvelt er að reisa tjöld, súlur og net fyrir alskyns leiki. – úr bókinn Draumagarður

grillskyli_heitur_pottur_solpallurGrillskýli og húsgögn

Eitt mikilvægasta atriðið við útfærslu dvalarsvæðis er að koma fyrir góðum og nytsamlegum húsgögnum. Með því að gera ráð fyrir þeim strax við hönnun svæðanna má auka notagildi þeirra. Miða má staðsetningu húsgagnanna við hvar sólin er á hverjum tíma dags og hvar best er að finna skjól. Þannig má hafa sólstóla undir veggjum sem snúa mót suðri og suðaustri, en þetta eru þau svæði sem hitna hvað mest á daginn. Matborðið má svo hafa þar sem sólar nýtur seinni part dags og á kvöldin, en algengt er að eftirmiðdagskaffi sé drukkið og kvöldverður snæddur úti í garði. Gott er að gera ráð fyrir tveimur mögulegum stöðum fyrir grillið, eftir því úr hvaða átt vindar blása, en nútíma gasgrill er auðvelt að færa á milli staða. Í grillskýli eins og þessu á myndinn má finna skjól í flestum vindáttum. – Úr bókinni Draumagarður