Category Archives: Ideas

grodur_adkomaGróður og uppröðun
Til að mynda samræmda heildarmynd garðs og gróðurs má þróa stefnu sem tengir saman einkenni gróðurs og skipulag garðsins. Slík stefna getur snúið að tilraunum í fagurfræði, mótuðum hugmyndum eða þemu. Algeng stefna er að hafa alltaf eitthvað blómstrandi yfir allt vaxtartímabilið og jafnframt sígrænan gróður fyrir veturinn. Þá eru valdar saman tegundir sem blómstra á vorin, að sumri og um haust, ásamt sígrænum plöntum. Algengt þema getur snúið að lit blóma en þá fær hvert svæði í garðinum sinn blómalit og mætti þá kalla þau hvíta svæðið, bleika svæðið eða græna svæðið. Stefnan getur einnig snúist um hagkvæm atriði eins og viðhald, en með þéttri gróðursetningu má hafa áhrif á hversu auðvelt illgresi á með að skjóta rótum. Rómantík, hugleiðsla, slökun, villt náttúra og önnur huglæg atriði geta einnig verið innblástur að þema garðsins.

handrid_solpallur_hardvidurHandrið
Vel smíðuð og fallega útfærð handrið geta sett mikinn svip á trépalla. Þau afmarka palla frá öðrum svæðum og gefa oft möguleika á því að pallar séu nýtanlegir alveg út á brún. Handrið mynda gjarnan góða viðkomustaði, þar sem má halla sér upp að þeim og staldra við til að ræða saman eða virða fyrir sér fallegt útsýni. Sum handrið eru þannig útfærð að hægt er að leggja á þau glös og litla diska, en það getur komið sér vel ef halda á veislu. Sum handrið má jafnvel nota sem klifurgrindur.
Handrið eru gjarnan reist þegar aðstæður eru þannig í garðinum að hætta er á falli, t.d. við tröppur, þar sem pallur er hærri en landið og þegar gönguleiðir liggja fyrir ofan stoðveggi eða aðra upphækkun. – úr bókinni Draumagarður

hardvidur_grar_heitur_potturHarðviður og fura

Gagnvarin fura er algengasta byggingarefnið fyrir trépalla, bæði vegna verðs og þess hversu auðvelt er að vinna með hana. Fúavörnin er fólgin í því að rotvarnarefni er þrýst inn í timbrið eftir að það hefur verið sagað í endanlega þykkt. Þannig er komið í veg fyrir rotnun inni í timbrinu. Þessi viðarvörn dugir þó ekki til þess að verja yfirborðið gagnvart sólarljósi og þarf því að bera reglulega á. Lerki og harðviður eru gjarnan seldir í borðum með rásuðu yfirborði en með því verður pallurinn ekki eins háll í bleytu. Harðviðurinn gránar ef ekki er borið á hann og fær silfurgrátt útlit eins og í myndinni. –

heitur_pottur_hringurHeitir pottar og baðsvæðin

Það er munaður að geta legið í heitum potti í eigin garði, umvafinn gufu, á meðan þreytan líður úr líkamanum í þyngdarleysi vatnsins. Þá mýkjast vöðvarnir, sálin hressist og áhyggjur hversdagsins líða á brott. Það er því ekki að ástæðulausu að heitur pottur er gjarnan ofarlega á óskalista garðeigandans. Stundum er hann aðalkveikja þess að farið er í garðframkvæmdir og þegar vel tekst til verður hluti garðsins að huggulegri baðstofu utandyra. Staðsetning hennar, með tilliti til tengingar við hús og aðra hluta garðsins auk skjólmyndunar, ræður því hvort hún verður að mikið notuðu djásni. Önnur atriði sem þarf að huga að er val á potti, umgjörð hans í garðinum, öryggi og hvernig nánasta umhverfi hans getur ráðið úrslitum um fallegan stíl og heildarsvip. – Úr bókinni Draumagarður

hellulagnir_gragryti_honnunHellulagnir

Hellur geta þjónað ýmsum tilgangi, t.d. sem yfirborð á dvalarsvæði, innkeyrslum eða á stígum á milli svæða. Samanborið við önnur yfirborðsefni, eins og gras, mold eða möl, má ganga og aka á hellum án þess að nokkuð sjáist á þeim. Einnig geta hellulagðir fletir myndað slétt svæði þar sem gott er að vera með borð og stóla og ójöfnur eru ekki til ama þegar boðið er til veislu. Á grasflötum geta hins vegar myndast slóðir eða troðningar ef gönguleiðir liggja um flötina, en til þess að slík ummerki sjáist á hellulögnum þarf margra áratuga umgang. Því eru hellulagðir stígar góðir þar sem væntanlegur umgangur er mikill.
Garðframkvæmdir geta verið stór hluti af byggingarkostnaði húss og þar er kostnaðurinn við hellulagnir oft mikill. Við einbýli er algengt að innkeyrslur séu yfir 100 m2 en önnur svæði, t.d. dvalarsvæði og stígar, geta tvöfaldað þessa tölu. Það getur því borgað sig að kynna sér vel útfærslumöguleika og taka ákvarðanir áður en framkvæmdir hefjast. – úr bókinni Draumagarður

Fyrir þá sem eru að helluleggja má finna leiðbeiningar á bloggvefnum:

landslagsarkitekt.com

hellur_hellulganirHellur og hellulagnir

Hvers vegna að helluleggja? Steyptar hellur eru meðal margra mögulegra yfirborðsefna fyrir bílastæði, stíga og dvalarsvæði. Hellulagt svæði í garði myndar gott mótvægi við mjúka trépalla, grasflatir og gróður. Hellulögðu fletirnir eru slitsterkir og formfallegir, auk þess sem yfirborðsvatn getur auðveldlega runnið af þeim. Þeir gefa einnig möguleika á því að svæðið sé hitað, og þar með laust við snjó og klaka á veturna.

Hellulagnir og munstur

Með þeirri tækni sem nota má við að saga og höggva hellur er mögulegt að útbúa ýmiss konar form og mynstur. Þessi form geta tekið mið af útliti hússins þannig að heildarsamspil húss og garðs aukist. Einnig geta hlutföll í hurðum, gluggum, bogaþök, þríhyrndir gluggar eða önnur sterk útlitseinkenni gefið tóninn fyrir mynstur. Ef mismunandi form eru notuð á svæði í garðinum má gefa hverju einstöku svæði sinn sérstaka stíl, líkt og herbergjum sem máluð eru í mismunandi litum. Síðan eru ólíkar tegundir af blómstrandi runnum staðsettar við hvert svæði eins og málverk sem hengd eru á veggi innandyra. Þannig eiga hellurnar stóran þátt í að mynda það ævintýrasvæði sem garðurinn getur orðið.

Fjölbreytni í formi og litum

Mikið úrval er af hellum sem nota má í garðinn; mismunandi stærðir, lögun og litir. Algengt er nú að valdar séu smáar hellur sem raðað er í mynstur. Litaðar hellur eru einnig að verða algengari, en með þeim er hægt að mynda samspil við liti og form í húsi og umhverfi. Fjórir litir eru algengastir; grár (venjulegur steypulitur), sótgrár (stundum kallaður svartur), rauður og brúnn. Grár og dökkgrár eru hefðbundnir litir steypu og malbiks hér á landi og því er hellulögn í þessum litum oftast í samræmi við nánasta umhverfi. Rauði liturinn er vandmeðfarinn og máli skiptir að hann sé hluti af samspili húss og umhverfis. Þannig getur rauður litur í stétt myndað samræmi við þaklit eða lit á gluggakörmum. Brúni liturinn er nokkuð þægilegur í meðförum því hann er til staðar í jarðvegi og gróðri, auk þess sem viður í girðingum og gluggum húsa getur myndað skemmtilegt samspil við hann.

 

Á blogginu landslagsarkitekt.com má finna mikinn viðbótarfróðleik um hellur og hellulagnir

hladinn_bekkur_utilysingHlaðinn bekkur og steyptar hleðslur
Hleðslur úr steyptum steinum geta verið góðar til þess að afmarka svæði. Flestar slíkar einingar eru það litlar að auðvelt er að hlaða úr þeim veggi. Hvort sem um er að ræða afmörkun á svæði í garðinum eða dvalarsvæði uppi við hús eru slíkar hleðslur áberandi og svipmiklar. Margar tegundir bjóða upp á að veggirnir myndi boga en það getur gefið sviplitlu svæði náttúrulegt yfirbragð.  – úr bókinni Draumagarður

hladinn_veggurSprengdir steinar og hraun
Sumir veggir eru hlaðnir úr óunnu grjóti eða hrauni. Það er góður kostur ef nægilegt rými er fyrir hleðsluna sjálfa, en grjótið, bakfyllingin og hallinn sem þarf að vera á hleðslunni getur kallað á 1-2 metra breidd. Slíkt grjót má fá þar sem berg hefur verið klofið eða sprengt til þess að koma fyrir byggingum en það er algengt að verktakar þurfi að losa sig við sprengda steina. Þessi tegund hleðslu er oft mun hagkvæmari en steinsteypa. Í hleðslu sem er lægri en 1 metri má nota hraun, en vegna þess hversu létt það er og hve auðveldlega það getur brotnað er það ekki nothæft í háa veggi, nema veggurinn sé styrktur með steinsteypu í bakfyllingunni. Hraunið getur einnig farið vel með ýmsum gróðri eða grasi. – Úr bókinni Draumagarður

hledsla_veggur_utsyniHlaðnir veggir, útsýni og sjónásar
Í hæðóttu landslagi, með fjöll og sjó í nágrenni, er útsýni mikilvægur þáttur í vellíðan fólks og áhrifavaldur þegar kemur að hönnun garða. Fjallasýn og sjór hafa ávallt verið innblástur fyrir myndlistarmenn og mörg slík verk hanga á veggjum í híbýlum fólks. Það er einnig talinn kostur ef íbúðir hafa útsýni yfir haf eða fjöll og getur það hækkað verð fasteignar. Á sama hátt getur fallegt útsýni úr garði aukið ánægju og hughrif, en náttúrusýn er talin hafa streitulosandi áhrif. – Úr bókinn Draumagarður

landslag_utsyni_gardurLandslag – jafnt innan garðs sem utan

Vel skipulagður garður sameinar notagildi og fegurð þannig að íbúðarrýmið framlengist og fjöldi nýrra tækifæra til útivistar verða til. Með eðlilegri samsvörun í formum, litum og áferð, ásamt góðum húsgögnum og afþreyingarmöguleikum, verður hann einn af uppáhaldsstöðunum. Þegar stærðir svæðanna utandyra samsvara sér vel og mynda góð tengsl við herbergi hússins fá þau skemmtilegt hlutverk í heildarmynd íbúðarrýmis. Með vel skipulögðum garði er séð fyrir fjölbreyttri notkun svæða innan hans og góðri tengingu við nánasta umhverfi. Þannig fær garður við sjávarsíðu annað yfirbragð en garður í hraunlandslagi og garður í sveit er afmarkaður á annan hátt en garður í miðborg. Af þessu má vera ljóst að það þarf hugkvæmni til að móta fallegan garð fyrir fjölbreytt not og góða samsvörun við umhverfið. – Úr bókinni Draumagarður