Category Archives: Ideas

leiksvaedi_solpallurLeiksvæði
Stígar um garðinn, rúmgóð dvalarsvæði, sléttar grasflatir og vel staðsettar girðingar eru allt atriði sem gera garð barnvænan. Leikur getur farið fram á sólpalli þar sem skjól er gott og góð tenging er við hús. Rólur, rennibrautir og kastalar geta verið fjarri aðaldvalarsvæðunum, en leiktæki fyrir yngstu börnin, t.d. sandkassa, er best að setja við pallinn eða dvalarsvæðið þar sem auðvelt er að fylgjast með. Á pallinum má einnig gera ráð fyrir leik með léttum leikföngum, til að mynda brúðum og bílum, en til þess þarf einungis autt pláss á sólríku og skjólgóðu svæði. – Úr bókinni Draumagarður

lysing_gardur_solpallurLýsing dvalarsvæðis í görðum
Dvalarsvæðið er stofa garðsins og þar má leggja áherslu á að bæta þægindi, mynda skjól og auka lýsingu og fjölga þannig mögulegum tómstundum. Þá nýtist þessi hluti garðsins vel á kvöldin þegar dagarnir eru styttri, t.d. fyrir hvíldarstundir í heita pottinum. Dvalarsvæðið er líka oft það svæði sem sést hvað best innan úr húsinu og er lýsingin því mikilvæg til að tengja saman íbúðarrými innandyra og tímabundin dvalarrými utandyra. Þar skiptir máli að lýsing valdi ekki óþægindum, skeri ekki í augu og flæði ekki mikið inn á nærliggjandi svæði. Oft er því gott að hafa ljós neðarlega þannig að áherslan sé á að lýsa upp yfirborðið svæðisins og lágan gróður í jaðri þess. Á þeim svæðum þar sem mikilvægt er að sjá vel til, t.d. við matborðið, má hafa ljós ofan við augnhæð. Þá getur verið gott að miða við rúmlega tveggja metra hæð og leita að tækifæri til þess að hafa ljós á veggjum, í þakköntum eða á háum staurum. Ef ljós eru sett í þakkanta þarf að huga vel að nálægum gluggum því að ljós sem skín beint inn um glugga getur verið óþægilegt. Grundvallarreglan er því sú að hafa ljós í þakköntum á milli glugga. Ef dvalarsvæði sést vel út um glugga í húsi má setja ljós í garð með tilliti til útsýnis þaðan. Þá eru skilgreind þau svæði sem verða hluti útsýnisins, þau lýst upp og skuggasvæðin látin eiga sig til þess að skilin milli ljóss og myrkurs verði skýrari. Þetta undirstrikar heildarmyndina sem getur gert útsýni úr stofu að listaverki. – Úr bókinn Draumagarður

gardhusgogn_solpallur_solstollHúsgögn í garðinum

Eitt mikilvægasta atriðið við útfærslu dvalarsvæðis er að koma fyrir góðum og nytsamlegum húsgögnum. Með því að gera ráð fyrir þeim strax við hönnun svæðanna má auka notagildi þeirra. Miða má staðsetningu húsgagnanna við hvar sólin er á hverjum tíma dags og hvar best er að finna skjól. Þannig má hafa sólstóla undir veggjum sem snúa mót suðri og suðaustri, en þetta eru þau svæði sem hitna hvað mest á daginn. Matborðið má svo hafa þar sem sólar nýtur seinni part dags og á kvöldin, en algengt er að eftirmiðdagskaffi sé drukkið og kvöldverður snæddur úti í garði. Gott er að gera ráð fyrir tveimur mögulegum stöðum fyrir grillið, eftir því úr hvaða átt vindar blása, en nútíma gasgrill er auðvelt að færa á milli staða. – Úr bókinn Draumagarður

honnun_gardur_solpallurHönnun garðsins

Hver eru einkenni góðs garðhönnuðar? Til þess að skipuleggja glæsilegan garð þarf ástríðu fyrir fegurð og formum, áhuga á fallegu umhverfi og að vera umhugað um vellíðan fólks. Ástríðan getur komið fram í áhuga á gróðri, hönnun og skipulagi eða þörf til að framkvæma. Því ætti hver hönnuður að hlusta á sína innri rödd og leggja áherslu á vinnuna í samræmi við áhugasvið sitt, ásamt því að byggja upp góða tilfinningu fyrir heildarmynd en hún ræður hughrifum notandans. Skynfæri hönnuðar og síðan garðeigandans eru virkjuð með útfærslum á formfallegum svæðum, fjölbreyttum litum, lykt af gróðri, hljóði frá seytlandi vatni og mismunandi áferð byggingarefna. Í garðinum verður lífstakturinn hægari, þreytan líður burt og streitan gleymist. Með góðri samræmingu á hinum fjölmörgu þáttum getur hönnuðurinn skapað stað til leikja, skemmtunar, íhugunar eða einveru þar sem njóta má næðis með góða bók eða eigin hugsanir. – Úr bókinni Draumagarður

skjolveggur_gardhusgogn_stettSkjólgirðingar og ríkjandi vindáttir

Á hverjum stað eru einnig ríkjandi vindáttir. Þetta eru þær áttir sem algengast er að vindurinn blási úr. Ríkjandi vindáttir geta verið mismunandi eftir árstíðum. Sumum vindáttum fylgir rigning eða væta en aðrar eru algengar í björtu veðri og þurru. Þetta er bæði breytilegt eftir landshlutum og eftir því hver afstaða fjalla er. Þannig hefur til dæmis Esjan þau áhrif að þegar norðaustanátt er yfir landinu geta verið austan-, norðaustan-, norðan- eða norðvestanáttir, allt eftir því hvar á höfuðborgarsvæðinu vindurinn er mældur. Á suðvesturhorni landsins er algengasta áttin suðaustlæg. Það er jafnframt ein vætusamasta áttin. Önnur algeng átt er norðlæg og norðaustlæg. Þessum norðlægu áttum fylgir yfirleitt bjart veður og sólskin. Þess vegna er mikilvægt, þegar verið er að hanna útivistarsvæði í garðinum, að skýla fyrir þeim áttum því útivistin er skemmtilegust í björtu og þurru veðri. – úr bókinni Draumagarður

skjolveggur_gardhusgogn_stettVeðurfar og skjólveggir
Ísland er eitt vindasamasta land í heimi og veður því algengt umræðuefni. Þrátt fyrir þetta er útivist vinsæl og mikið er rætt um sól, úrkomu og vinda í tengslum við slíkt, en þessir þrír þættir ráða hversu þægilegt er að vera utandyra. Logn varir mislengi og útivistin oft háð því að klæða sig vel og finna eða skapa skjólgóða staði. Skjólsvæði þurfa að vera staðsett þannig að njóti vel sólar. Þannig er það samspil skjólmyndunar og sólargangs sem skiptir mestu máli fyrir útivist á sólardögum í garðinum. Með því að skoða afstöðu garðs gagnvart sól og algengum vindáttum má tryggja að góðir útivistardagar nýtist vel. – Úr bókinn Draumagarður

solpallur_solstoll_gardkrokurSólpallur og eiginleikar

Til þess að hönnun og notkun trépalls verði sem best þarf að skoða helstu eiginleika trépallsins. Trépallar eru mjúkir, með hlýlegt yfirbragð og þegar sólin skín er yfirborðið fljótt að hitna. Þeir geta því ýtt undir notkun garðsins á heitum sumardögum. Trépallar eru fljótir að þorna eftir rigningar. Það er bæði vegna þess að það hripar vel niður um bilið á milli klæðningarborða en einnig vegna þess að vel varið timbur hrindir frá sér vatni. Þess vegna gengur vel að vera með trépall við heita pottinn.

Sólpallar mjúkir undir fæti

Pallar eru mjúkir undir fæti þannig að þægilegt er að ganga á þeim, hvort sem er berfættur eða í sokkum. Sami eiginleiki gerir það að verkum að þeir sem hrasa og detta á trépall fá mjúka lendingu. Það er einnig minni hætta á að glös eða glermunir brotni þegar þeir falla á trépall heldur en þegar um harðara efni eins og steypu er að ræða. Börn eru dettin og gjörn á að meiða sig í fjörugum leik. Þess vegna er trépallurinn góður fyrir leik af ýmsum toga og er tilvalið að hafa sandkassa eða lítið leikjahús á pallinum. – Úr bókinn Draumagarður

Um smíði sólpalla má finna leiðbeiningar á landslagsarkitekt.com

steinar_studlaberg_blagryti_molSteinar og stuðlaberg

Áður en notkun steypu varð algeng voru ýmis konar efni úr tilhöggnu bergi og náttúrusteinum notuð til að hlaða hús og leggja stéttir. Tilhöggnir steinar eru ennþá notaðir í vandaðar og dýrar framkvæmdir sem eiga að standast tímans tönn hvað varðar endingu og stíl. Þar sem endurskapa á hughrif liðinna tíma geta tilhöggnir steinar myndað útfærslurnar sem aðrir hlutar garðsins eru mótaðir að.

Á Íslandi er basalt algengasta bergtegundin í þessar framkvæmdir, en það skiptist í blágrýti og grágrýti. Blágrýtið er harðara og finnst aðallega í formi stuðla. Algengast er að nota stuðlana óunna en einnig getur verið fallegt að saga þá niður. Ef stuðlarnir eru sagaðir þvert myndast kantaðar plötur með 5-7 hliðum en ef sagað er langsum verða til ílangar blágráar hellur. Grágrýti, sem er mýkra og til í meira magni, hefur verið algengara sem byggingarefni þar sem auðveldara er að höggva það í mismunandi form og hlaða úr því hús og leggja götur. – Úr bókinni Draumagarður

sumarbustadur_solpallurSumarbústaður með sólpall

Við sumarbústaði er vinsælt að hafa sólpalla og er þá algengast að grindin sem er undir bústaðnum sé framlengd og pallklæðning sett ofan á hana. Ef þessi aðferð er notuð þá getur hljóð borist mjög vel inn í bústaðinn. Þess vegna er gott að skoða þann möguleika að hafa pallinn eða hluta hans á grind og undirstöðum sem ekki eru hluti af grind hússins. Þannig er hægt að minnka líkur á að hljóð berist inn í húsið. Þetta gefur líka möguleika á flóknari formum og að hafa pallinn á mismunandi hæðum.