Category Archives: Ideas

sumarhus_pallurTrépallar eru algengir við sumarhús
Þegar verið er að ákveða hvaða yfirborð eigi að nota á verönd stendur valið yfirleitt á milli steinsteypu, hellna og trépalls. Til þess að steypa og hellulagðar verandir séu til friðs þarf undirlagið að vera laust við frostvirkni en efni, svo sem mold og leir, draga í sig mikið vatn og þenjast því út í frosti. Ef mikil frostvirkni er í undirlaginu aflagast stéttin því á hverjum vetri. Þess vegna þarf jafnan að skipta um jarðveg fyrir steyptar stéttir og hellulagnir. Þegar um trépall er að ræða er nóg að útbúa undirstöður sem ná niður fyrir frost en hver undirstaða getur haldið uppi allt að fjórum fermetrum af palli. Trépallurinn verður því mjög álitlegur kostur á stöðum þar sem erfitt er að koma fyrir tækjum til að grafa. Einnig ef flytja þarf efnið í veröndina langar leiðir því talsverður þyngdarmunur er á steypu og timbri. Í mörgum tilfellum dugir að nota einfaldar undirstöður fyrir palla þannig að vélavinna sé í lágmarki. Þetta er ein af ástæðum þess að trépallar eru algengir við sumarhús. – úr bókinn Draumagarður

tjorn_hellur_studlaberg Góð sæti og þægileg húsgögn

Eitt mikilvægasta atriðið við útfærslu dvalarsvæðis er að koma fyrir góðum og nytsamlegum húsgögnum. Með því að gera ráð fyrir þeim strax við hönnun svæðanna má auka notagildi þeirra. Miða má staðsetningu húsgagnanna við hvar sólin er á hverjum tíma dags og hvar best er að finna skjól. Þannig má hafa sólstóla undir veggjum sem snúa mót suðri og suðaustri, en þetta eru þau svæði sem hitna hvað mest á daginn. Matborðið má svo hafa þar sem sólar nýtur seinni part dags og á kvöldin, en algengt er að eftirmiðdagskaffi sé drukkið og kvöldverður snæddur úti í garði. Gott er að gera ráð fyrir tveimur mögulegum stöðum fyrir grillið, eftir því úr hvaða átt vindar blása, en nútíma gasgrill er auðvelt að færa á milli staða. – Úr bókinni Draumagarður

tjorn_hellur_studlabergTjarnir
Fátt er meira róandi en að hlusta á lækjarnið, horfa út á sléttan vatnsflöt eða dýfa stórutá í vatn. Vatnið hefur einnig löngum verið nýtt til lækninga og til að skapa þægilegt andrúmsloft. Það má því segja að tjörn eða gosbrunnur geti bætt heilsu og aukið ánægju þeirra sem þar koma nálægt. Margir leggja áherslu á að vera með vatn í garðinum og oft verða þeir staðir miðpunktar garðsins. Það eru margar leiðir til þess að hafa vatn í görðum. Til er fjöldi útfærslna af tjörnum og gosbrunnum, allt frá litlum steinum með gati upp í flókin kerfi lauga með gosbrunnum og fossum á milli. Hvernig tjörn skal velja fer eftir því hver tilgangurinn með henni er. Sumir vilja einungis heyra þægilegan vatnsniðinn en öðrum finnst ómissandi að vera með fiska í garðinum, en þá þarf djúpar tjarnir með miklu flatarmáli. Fyrir suma er útfærsla tjarnar uppspretta sköpunar þar sem umgjörðinni er breytt á hverju ári, nýjar plöntur settar í stað þeirra gömlu og gosbrunnum með marglitum upplýstum bunum bætt við. – Úr bókinni Draumagarður

troppur_til_ad_sitja_iTröppur þar sem gott er að setjast

Fyrir tröppur þar sem gert er ráð fyrir almennri umferð má styðjast við byggingarreglugerð en hún segir til um æskilegan bratta á tröppum ásamt því að útlista stærð og staðsetningu á Fyrir tröppur þar sem gert er ráð fyrir almennri umferð má styðjast við byggingarreglugerð en hún segir til um æskilegan bratta á tröppum ásamt því að útlista stærð og staðsetningu á hvíldarpöllum. Þar segir að uppstig þreps skuli ekki vera hærra en 16 sm og framstig ekki styttra en 28 sm. Halli á tröppum utandyra á einnig að vera á bilinu 17-30 gráður. Ef landhalli er meiri getur þurft að láta tröppurnar liggja í beygju. Þar segir að uppstig þreps skuli ekki vera hærra en 16 sm og framstig ekki styttra en 28 sm.

Oft er stuðst við aðrar málsetningar, t.d. ef um er að ræða tröppur sem gert er ráð fyrir að setjast í eða þar sem ekki er búist við almennri umferð. Ef tröppurnar snúa mót suðri þegar sólar nýtur um miðjan dag og ekki er reiknað með almennri umferð um þær, má gera ráð fyrir hærra uppstigi og lengra framstigi en reglugerðin segir til um. Á þennan hátt verða tröppurnar eins konar stúkusvæði. Algeng hæð á setu í stól er 46-52 sm og er uppstigið á stúkusvæði látið vera helmingur af því, eða 23-26 sm. Þá hvíla fætur eðlilega í tröppunum fyrir neðan. Úr Draumagarði

skjolgirdingar_utsyni_glerÚtsýni og sjónásar
Í hæðóttu landslagi, með fjöll og sjó í nágrenni, er útsýni mikilvægur þáttur í vellíðan fólks og áhrifavaldur þegar kemur að hönnun garða. Fjallasýn og sjór hafa ávallt verið innblástur fyrir myndlistarmenn og mörg slík verk hanga á veggjum í híbýlum fólks. Það er einnig talinn kostur ef íbúðir hafa útsýni yfir haf eða fjöll og getur það hækkað verð fasteignar. Á sama hátt getur fallegt útsýni úr garði aukið ánægju og hughrif, en náttúrusýn er talin hafa streitulosandi áhrif. Við hönnun garða er hugtakið útsýni víkkað út svo hægt sé að taka með í reikninginn útsýni og sjónása innan garðs. Þá er hægt að skyggja á óásjáleg atriði utan hans og auðga sjónræna upplifun þegar gengið er um hann. Með upplifun er átt við hvað birtist þegar gengið er eftir stíg sem sveigist eða þegar gengið er fyrir horn. Það eru aðallega þrjár leiðir sem hönnuðir hafa til þess að nýta sér útsýni við skipulag garðsins. Það má ramma það inn, loka það úti eða nýta garðmuni og gróður til að skapa fyrirfram ákveðna mynd.

vedurfar_skjolveggurVeðurfar og skjólmyndun
Margar leiðir eru færar til að mynda skjól í görðum en þörfin er mismikil og fer eftir aðstæðum. Einn mikilvægasti skjólgjafinn í venjulegum garði er íbúðarhúsið sjálft. Lögun þess og hvernig það er staðsett á lóðinni getur orðið til þess að mynda mjög gott skjól. Þó eru einnig til dæmi þess að í ákveðnum vindáttum magni afstaða og staðsetning húss upp vindsveipi. Þegar þetta gerist þarf að skoða þessa staði vel og athuga hvort hægt sé að beina vindinum frá setu- og sólbaðssvæðum. Það sem er erfiðast að eiga við er þegar vindar blása ofan af þaki, en þá getur lega skjólveggja jafnvel magnað upp áhrif vindanna. Besta leiðin til að nýta það skjól sem húsið myndar er að nota skjólveggi eða harðgerðan gróður sem beina vindi utar í garðinn og gera það að verkum að skjólsvæði við húsið verða stærri. Skjólveggir eru ýmist gerðir úr timbri, steypu eða hlaðnir. Í mörgum tilfellum er einnig hægt að notast við umhverfisvænni aðferðir eins og gróður eða hæðir og hóla. – Úr Draumagarði