Handrið
Vel smíðuð og fallega útfærð handrið geta sett mikinn svip á trépalla. Þau afmarka palla frá öðrum svæðum og gefa oft möguleika á því að pallar séu nýtanlegir alveg út á brún. Handrið mynda gjarnan góða viðkomustaði, þar sem má halla sér upp að þeim og staldra við til að ræða saman eða virða fyrir sér fallegt útsýni. Sum handrið eru þannig útfærð að hægt er að leggja á þau glös og litla diska, en það getur komið sér vel ef halda á veislu. Sum handrið má jafnvel nota sem klifurgrindur.
Handrið eru gjarnan reist þegar aðstæður eru þannig í garðinum að hætta er á falli, t.d. við tröppur, þar sem pallur er hærri en landið og þegar gönguleiðir liggja fyrir ofan stoðveggi eða aðra upphækkun. – úr bókinni Draumagarður