Eitt mikilvægasta atriðið við útfærslu dvalarsvæðis er að koma fyrir góðum og nytsamlegum húsgögnum. Með því að gera ráð fyrir þeim strax við hönnun svæðanna má auka notagildi þeirra. Miða má staðsetningu húsgagnanna við hvar sólin er á hverjum tíma dags og hvar best er að finna skjól. Þannig má hafa sólstóla undir veggjum sem snúa mót suðri og suðaustri, en þetta eru þau svæði sem hitna hvað mest á daginn. Matborðið má svo hafa þar sem sólar nýtur seinni part dags og á kvöldin, en algengt er að eftirmiðdagskaffi sé drukkið og kvöldverður snæddur úti í garði. Gott er að gera ráð fyrir tveimur mögulegum stöðum fyrir grillið, eftir því úr hvaða átt vindar blása, en nútíma gasgrill er auðvelt að færa á milli staða. – Úr bókinni Draumagarður